Iljarfellsbólga - Plantar Fasciitis

Alt
on 08 apr 2016 11:59 AM

 

Einkenni
Iljarfellsbólga er algengt vandamál og lýsir sér í verk og aukinni viðkvæmni undir il, oftast rétt framan við hæl.  Verkur er oft mestur þegar stigið er í fót eftir hvíld. Einkenni er þó mismikil og geta verið allt frá vægum verkjum við að stíga fyrstu skref að morgni yfir í mikinn sársauka yfir allan daginn sem getur haft mikil áhrif á daglegt líf.

Orsök
Iljarfellið er sinabreiða undir il sem nær frá hæl og fram í tær.  Við ofálag getur myndast í henni bólga sem þá leiðir til aukinnar viðkæmni og verkja.
Hugtakið hælspori er nátengt iljarfellsbólgu og geta alvarlegri tilfelli leitt til hælspora. Þá getur orðið beinmyndun í sininni þar sem hún festist í hælbeinið og kallast sá beinnabbi hælspori.

Meðferðarúrræði
Mikilvægt er að grípa inn í eins fljótt og hægt er eftir að einkenni koma fram. Gott er að draga úr eða breyta æfingaálagi en ekki er þörf á að hætta alveg heldur æfa undir sársaukamörkum. Ef bólgueyðandi meðferð er þörf er ráðlagt að byrja á henni en þegar bólga er ekki lengur viðvarandi má notast við teygjur og æfingar. Teygjur geta reynst vel til að létta á og gott er að notast við hælpúða eða annan stuðning í skó. Kæling getur einnig hjálpað til við að draga úr bólgum. Skurðaðgerðir vegna hælspora hafa ekki skilað góðum árangri.

Forvörn
Mikilvægt er að notast við góðan skóbúnað.  Stuðningur við ökkla og fótboga geta létt á álagi á sinina og minnkað líkur á bólgueinkennum.

Æfingar til að létta á einkennum og flýta fyrir bata (sjá mynd)

  1. „Handklæðateygjan“
    Settu handklæði undir táberg. Haltu í sitthvort endann á handklæðinu og réttu úr táberginu og fáðu góða teygju á ilina. Reyndu reyndu að halda hnénu beinu. Haltu í um 30 sek fyrir hvorn fót.
  2. „Kálfa / hælteygja í stiga“
    Stattu í stigaþrepi með hælinn útaf og styddu þig við vegg eða handrið. Láttu hælinn síga rólega til að fá teygju á kálfann og jafnvel undir ilina. Haltu teygjunni í 30 sek fyrir hvorn fót.
  3. „Bolta nudd“
    Rúllaðu undir ilina nokkuð þétt með tennisbolta, rúllaðu vel yfir alla ilina, frá tám aftur að hæl. Gerðu æfinguna eins lengi og þér langar og finnst þægilegt.

Eirberg hefur til sölu ýmsar góðar lausnir til að meðhöndla og fyrirbyggja iljarfellsbólgu og hælspora. Sjá nánar hér.