Íþróttir og íþróttahaldarar

Alt
on 20 apr 2016 8:57 AM

Regluleg hreyfing er mikilvæg fyrir líkama og sál. Góður fatnaður og skór hafa mikið að segja til að hreyfingin sé til góðs en valdi ekki skaða. Stuðningur við brjóst er mikilvægur dags daglega og sérstaklega í líkamsrækt. Töluverð þyngd getur legið í brjóstunum, þau taka því í herðarnar og geta valdið verkjum í höfði, hálsi, baki og handleggjum. Það hefur aftur áhrif á árangur og upplifun af líkamsrækt.

Aðalstuðningur brjóstanna sjálfra eru liðbönd sem kallast Cooper liðbönd og húðin. Cooper liðböndin liggja frá brjóstvöðvunum, út í brjóstin og móta lögun brjóstanna. Við hreyfingu teygist á þessum liðböndum og við endurteknar æfingar án stuðnings getur þessi lenging orðið varanleg. Með aldrinum, minnkar svo teygjanleiki húðarinnar, hún þynnist og því minnkar stuðningurinn enn frekar.

Rannsóknir sýna að við hreyfingu eins og hlaup eða hopp geta brjóstin hreyfst 10-20 cm upp og niður ef ekki er notaður íþróttahaldari. Þetta kemur til af ónógum stuðningi í brjóstunum sjálfum. Brjóst hreyfast ekki bara upp og niður við æfingar heldur líka fram og til baka og til hliðanna. Þau hreyfast ekki í takt við brjóstkassann sem þau hvíla á heldur kemur hreyfingin seinna vegna þunga brjóstanna. Það sem íþróttahaldarinn gerir er að halda brjóstunum við brjóstkassann svo líkaminn og brjóstin hreyfist sem ein heild. Íþróttahaldari ætti að lágmarka hreyfingu brjóstanna. Því minna sem brjóstin hreyfast því betra. Góður íþróttahaldari minnkar einnig vöðvaþreytu því hann minnkar álag á brjóstvöðvana. Þá hefur notkun íþróttahaldara áhrif á öndunarhraða, lungnaafköst og hitastjórnun meðan á æfingu stendur.

Þrátt fyrir að konur hafi farið á Ólympíuleikana frá því snemma á 20.öldinni þá komu íþróttahaldarar ekki fram fyrr en undir lok 8.áratugarins. Í dag er úrvalið hins vegar mikið og því ættu allar konur að finna eitthvað við sitt hæfi.

Þegar valinn er íþróttahaldari er mikilvægt að velja þann sem gefur besta stuðninginn. Að auki eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við mátun.

  • Teygjan undir brjóstin á að vera lárétt allan hringinn. Teygjan á að vera passlega þétt. Nýr íþróttahaldari á að festast saman í ystu krækjum því hann víkkar með tímanum.
  • Skálarnar eiga að passa yfir brjóstin, ekki vera of víðar og poka, og brjóstin eiga ekki að koma upp úr skálunum
  • Ef íþróttahaldarinn er með spöng á hún að fylgja línu brjóstanna. Spöngin á að sitja á rifbeinunum, ekki brjóstvefnum.
  • Hlírarnir eiga að vera þægilegir, ekki sökkva ofan í axlirnar og ekki renna út af. Munið að stilla hlírana reglulega.Íþróttir og íþróttahaldarar

Hér má sjá úrval íþróttahaldara í Eirbergi.