Osgood Schlatter's

Alt
on 16 jan 2017 4:15 PM

Osgood Schlatter’s eru meiðsli sem koma fram sem verkur og bólga í sköflungshrjónu, festingu hnéskeljarsinar efst á sköflungi. Meiðslin koma helst fram á unglingsaldri á vaxtarskeiði og eru álagstengd frekar en áverkatengd.
Osgood Schlatter’s meiðsli eru heldur algeng og geta verið mjög hamlandi fyrir ungt fólk sem stundar íþróttir af kappi.

Einkenni
Helstu einkenni eru:

  • Staðbundinn verkur, bólga og eymsli í festu hnéskeljarsinar fyrir neðan hné.
  • Verkur við æfingar s.s. hlaup og hopp, hnébeygjur o.fl.
  • Sársauki við að ganga upp og niður stiga og við það að krjúpa.
  • Oft ber á stífleika í framanverðum lærum.
  • Við langvinn einkenni getur myndast hnúður við festu hnéskeljarsinar og er hann aumur við snertingu.

Orsök
Á vaxtarskeiði, þegar bein eru ekki fullþroskuð, eru ákveðin svæði þar sem vaxtalínur eru sérstaklega viðkvæmar fyrir álagi og því áreiti sem því fylgir. Síendurtekið álag á framanvert læri, sérstaklega við það að beygja og rétta snögglega úr hnjám, myndar tog á hnéskeljarsin og festu hennar á sköflungsbeini. Ef ekkert er gert til að létta á togi getur það leitt til þess að sin losni frá beini með örlitlum beinbút á, svokallað afrifubrot. Einkenni geta varað í langan tíma, jafnvel nokkur ár.

Meðferðarúrræði
Kæling
Ekki eru til nein bráðameðferðarúrræði við Osgood’s Schlatter en kæling getur verið verkjastillandi. 
Hvíld
Árangursríkasta meðferðin er algjör hvíld þar til einkenni hverfa. Eftir hvíld er mikilvægt að fara hægt af stað og öruggast er að gera það undir leiðsögn sjúkraþjálfara. Ef algjör hvíld kemur ekki til greina þarf að passa að stýra æfingaálagi á skynsaman hátt.

Teygjur
Vaxtarskeiðið er viðkvæmur tími og er mikilvægt að teygja vel á vöðvum til að hjálpa þeim að halda í við lengingu beina. Við Osgood Schlatter‘s er því mikilvægt að teygja reglulega á framanverðu læri. Bandvefslosun með nuddrúllu getur einnig verið afar hjálpleg en hún eykur blóðflæði um vöðva og minnkar stífni.

Stuðningur
Kinesio teip eða svo til gert stuðningsband (GenuPoint) getur hjálpað til við að létta á álagi sinar. Stuðningsbönd fyrir hné eru fyrirferðarlítil og auðveld í notkun. Yfirleitt eru þau þunnir strappar með gelpúða eða -perlum sem létta þannig á álagi við festu hnéskeljarsinar.

Forvörn
Virkt ungt fólk er í áhættuhópi að þróa með sér Osgood Schlatter‘s. Vaxtarskeiðið er viðkvæmt og ber að stýra álagi í æfingum sérstaklega vel á þeim tíma, bæði á æfingum og milli þeirra.  Þá ber að varast mikil hopp og snöggar hreyfingar með réttu í hnélið.  Lyftingar eru ekki viðeigandi fyrr en bein eru fullmótuð og sérstaklega þegar upp koma festumein.  Bein vaxa fyrst og vöðvar þurfa að halda í við vöxt þeirra svo ekki er æskilegt að stytta þá með lyftingum. Mikilvægt er að kenna ungu fólki sem stundar íþróttir af kappi mikilvægi þess að teygja á og notast við ýmsar bandvefslosunaraðferðir á milli æfinga til að jafna álag sem því fylgir.

Hér má skoða þær fjölmörgu vörur sem Eirberg hefur til að meðhöndla og fyrirbyggja Osgood Schlatter‘s.