Skóbúnaður fyrir börn

Alt
on 11 ágú 2017 10:38 AM

Skóbúnaður barna er afar mikilvægur þar sem þau eru á mikilli hreyfingu yfir daginn. Börn stækka hratt svo það getur verið mikill höfuðverkur að velja skó fyrir þau og ýmislegt þarf að hafa í huga við val á skóbúnaði fyrir börn á vaxtarskeiði. Flest börn fæðast með heilbrigða fætur og í fyrstu eru bein þeirra mjúk og mótanleg en harðna þangað til fóturinn er fullvaxinn. Það er því afar mikilvægt að velja góðan skóbúnað svo fætur þroskist eðlilega.

10 góð ráð við val á barnaskóm

  1. Fætur barna stækka ört svo gott er að mæla þá í hvert skipti sem nýir skór eru keyptir. Æskilegast er að hafa barnið með við val á skóm til að máta þá.
  2. Oftast er annar fóturinn stærri en hinn þegar börn eru að vaxa og þá er mikilvægt að miða val út frá þeim stærri.
  3. Þegar skór eru mátaðir ættir þú að geta fundið örlítið pláss framan við tær við þreifingu og að geta komið vísifingri auðveldlega aftur fyrir hæl. Einnig er gott að þreifa fyrir stóru- og litlutá til hliðanna til að koma í veg fyrir nuddsár.
  4. Börn ættu ekki að þurfa að “ganga skó til” svo mikilvægt er að stærð og snið sé viðeigandi fyrir barnið.
  5. Gott er að leitast eftir skóm sem veita góðan stuðning og þá sérstaklega um hælkappa. Hælkappinn styður við ökkla barnsins í göngu og ætti að vera heldur stífur. Þá þarf einnig að huga að því hvernig hann liggur að fæti barnsins og passa að hann nuddist ekki við ökklakúlur þess.
  6. Veljið reimaða skó eða skó með frönskum rennilás til að auka stöðugleika.
  7. Skór eiga að vera með hæfilega sveigjanlegum sóla. Sveigjan ætti að liggja við tábergsliði barnsins.
  8. Botninn á skónum ætti ekki að vera hærri en 1 cm.
  9. Æskilegast er að barnaskór séu úr náttúrulegum efnum eða efni sem andar vel.
  10. Mikilvægt er að skoða skóna reglulega að innan og utan til að fylgjast með því hvernig þeir eyðast og kaupa nýja í samræmi við það.

 

→ Fætur ná ekki fullum þroska fyrr en á unglingsaldri svo eðlilegt er að sjá flatfót, háa rist eða annað hjá börnum.
Ef börnin kvarta stöðugt undan verkjum er þó vel tilefni til að athuga það nánar.